Færsluflokkur: Bloggar
6.11.2013 | 19:53
Seðlabankinn á rangri leið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2013 | 20:45
Hlutföll kynjanna í stjórnum eða Gettu betur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2013 | 23:09
Liggur vilji þjóðarinnar fyrir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2013 | 15:14
Lokun á USA markað vegna öryggis?
Nú þegar búið er að banna barnabílstóla frá USA sökum öryggiskrafna, sem er jákvætt að stólar sem eru ekki öruggir séu ekki á íslenskum markaði, þá hækkar verð á þessum gríðarlega öruggu barnabílstólum frá Evrópu. Um leið og lögin tóku gildi þá hækkaði verð t.d. um 33% eins og sjá má í meðfylgjandi frétt. Ég er ekkert viss um að þeir stólar séu 33% öruggari, eða að krónan hafi fallið um 33% á þessum tímamótum.
Nei, þarna sést græðgi íslenskra kaupmanna. Búið er að loka á flæði á öryggisbúnaði frá USA sem fólk hefur keypt enda ómögulegt fyrir fólk með ung börn að standa undir þeim kostnaði sem lendir á því að kaupa barnavörur hér á Íslandi. Það er ekki bara bílstólar sem þarf að fjárfesta í. Barnavagnar sem eru komnir hátt á annað hundraðið og síðan þessar hefðbundnu rekstrarvörur, bleygjur, blautþurrkur og mögulega þurrmjólk (þegar þannig ber undir).
Hér á Íslandi þurfum við að fara að huga betur að fjölskyldufólki til þess að draga markvisst úr rekstarkostnaði þess. Að sjálfsögðu ætti öryggisbúnaður að vera mjög ódýr og spurning hvort hann mætti vera niðurgreiddur af hinu opinbera. T.d. mætti nýta brot af eldsneytisgjaldinu í þann þátt (án þess að hækka það gjald).
En getur það gengið hér á landi? Yrðu vörurnar lækkaðar í verði, myndi það skila sér til neytenda eða enda eins og þegar virðisaukaskattturinn var lækkaður á matvörum á sínum tíma og skilaði sér að öllum líkindum að stærstum hluta til kaupmanna?
Þurfum við að hafa "ríkis"-barnabílstóla til að tryggja lágt verð?
Barnabílstóllinn hækkaði um 33% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.5.2013 | 23:34
Tilboð á bensíni og díselolíu - Afsláttur eða gott verð???
Í dag var þrusu afsláttur á öllum bensínstöðvum að ég held. Síminn stoppaði ekki framan af degi þar sem N1 reið á vaðið og tilkynnti mér í SMS að afsláttur væri 12 krónur þann daginn. Næst kom SMS frá Atlantsolíu og sami afsláttur, síðan fylgdi ÓB á eftir. Allir með sama afslátt. Ég kíkti á heimasíðu Orkunnar og viti menn, 12 krónu afsláttur. Mikið var ég ánægður að sjá þennan afslátt þó svo að hann sé ekki nema 2 krónum meiri en hefðbundinn afsláttur er hjá mér í dag. Ég skráði mig í Afsláttar þrep Orkunnar fyrir síðustu mánaðarmót og þar sem ég nota alltof mikið eldsneyti í hverjum mánuði þá fæ ég 10 krónu afslátt á minni stöð.
En jæja ég var nokkuð hress með þetta eins og eflaust margir aðrir. Síðan varð mér á að keyra framhjá bensínstöð Atlantsolíu við Sæbraut. Þar sá ég að útsöluverð bensíns var í 241,3 (eða þar um bil). Þá hrökk ég við og trúði ekki mínum eigin augum, ég hafði keypt bensín fyrir rúmri viku og þá kostaði líterinn (á skilti) 236,2 kr. Því næst átti ég leið hjá Orku-stöð við Miklubraut og sá sama verðið þar, eða reyndar eins og venjulega 10 aurum lægra en hjá AO.
Sem sagt á aðeins einni viku hafði bensín hækkað um 5 krónur og ég held að þessi hækkun hafi komið til framkvæmda á síðustu dögum en ég fylgist nokkuð vel með breytingum á verðlagi (eða reyni það eftir bestu getu en það reynist mjög erfitt þar sem verð hækkar og lækkar ansi oft). Hef ekki fundið fréttir um hækkanir hér heima, einu fréttir um breytingar á olíuverði er erlendis frá og það reyndar lækkanir en það er nú önnur saga.
En þetta er algjört snilldarbragð hjá olíufélögunum að hækka verðið, veita ríflegan afslátt og láta nýja háa verðið gilda eftir það. Því allir gátu fengið góðan afslátt, reyndar af háu verði. Við gerum ekki athugasemdir daginn eftir því það var svo flottur afsláttur í gær og í raun spáðum ekkert mikið í verðinu daginn áður. En er það ekki afslátturinn sem gildir er það ekki eða hvað?
Auglýsing Múrbúðarinnar hljómar endalaust í hausnum á mér: Afsláttur eða gott verð? Hvort viljum við? Jú við viljum alltaf góðan afslátt, þeim mun hærri sem hann er þeim mun betur líður okkur, af því að við erum að fá vöruna á betri kjörum en náunginn við hliðina á okkur eða það teljum við.
En mér finnst eins og ég hafi verið hafður að fífli í dag en leið örlítið betur af því ég fékk svo góðan afslátt (þó svo verðið hafi á endanum verið 3 krónum hærra en fyrir viku).
En við verðum víst að sætta okkur við þetta, krónan fellur eftir nokkuð góða styrkingu að undanförnu. Okkur er sagt að það séu svo mikil verðmæti í því að hafa krónuna. Hún hjálpar okkur, segja sumir. Ég er ekki alveg sannfærður um það.
En hversu margir vissu að verðið hafði hækkað um 5 krónur?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.3.2013 | 10:08
Formanni Rafiðnaðarsambands Íslands vísað á dyr í Nóatúni!
Í gær tók formaður Rafiðnaðarsambands Íslands þátt í verðlagseftirliti ASÍ. Var það hlutverk formanns að taka niður verð á fyrirframákveðnum vörum í Nóatúnsverslun við Nóatún í Reykjavík. Nákvæmlega var búið að skilgreina hvaða vörur átti að skoða, hversu mikið magn var í ákveðinni einingu og hvert verðið á henni væri eins og verklagsreglur ASÍ skýra mjög skilmerkilega.
Það er skemmst frá því að segja að formanni RSÍ var vísað á dyr í miðri könnun og ítrekað var að hann mætti ekki skrá niður vöruverð þessarar verslunar. Skýr skilaboð voru frá stjórnendum Kaupáss að Verðlagseftirlit ASÍ má alls ekki taka niður verð vara búðarinnar! Ítrekað var óskað eftir að fá að ræða við verslunarstjóra sem lét ekki ná í sig þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanns. Formanni RSÍ var bannað að nýta þær upplýsingar sem hann náði að skrifa niður.
Það er virkilega sérkennilegt að þeir einu sem ekki hafa heimild til þess að skoða vöruverð er sá aðili sem miðlar upplýsingum til almennings um vöruverð viðkomandi verslana. Starfsmenn Bónuss fá til að mynda að skrá niður allt vöruverð búðarinnar rafrænt. Er þetta gert til þess að verlsanir geti skipt á milli sín þeim gróða sem almenningur verður af? Getur verið að þetta sé í raun ólöglegt samráð verslanakeðjanna sem stuðlar að því að gera neytendum ómögulegt að átta sig á verðlagi og velta hækkunum sífellt beint út í verðlagið sem hækkar skuldir og eykur greiðslubyrgði heimilanna?
Því hefur verið kastað fram af hálfu þessara aðila að verðlagseftirlit ASÍ standi ekki rétt að þessu eftirliti, ekki sé verið að bera saman sömu vörur. Þetta er RANGT! Nú hef ég reynt þetta sjálfur, ég versla mikið inn fyrir heimilið og þekki því vel til verslana, verið er að bera saman nákvæmlega sömu vörur í mismunandi verslunum. Verð er skráð niður á vörum sem innihalda nákvæmlega jafn mikið magn af viðkomandi varningi, í jafnstórum einingum. Jafnframt er skráð niður lægsta vöruverð tiltekinna flokka eins og lægsta fáanlega lítraverð á Léttmjólk.
Ef þessi aðferðarfræði ASÍ er röng þá má jafnframt spyrja hvernig Hagstofa Íslands getur tryggt það að vísitala neysluverðs (notuð til verðbólguútreikninga) sé rétt skráð? Hagstofan hringir í fjölda fyrirtækja og óskar eftir verðupplýsingum á tilteknum vörum í gegnum síma, Hagstofan fer í verslanir og framkvæmir könnun með sama hætti og ASÍ. Verslanir senda inn lista til Hagstofunnar með verðum ákveðinna vara sem Hagstofan óskar eftir.
Nú spyr ég sem leikmaður: Er eðlilegt að aðilar sem geta haft bein áhrif á verð vöru sendi Hagstofunni vöruverð rafrænt eða í gegnum síma? Gefur slík könnun nægilega góðan grunn til þess að mynda vísitölu sem hefur áhrif á allar skuldir og hefur bein áhrif á vaxtastig í landinu með hærra vöruverði og aukinni verðbólgu?
Hvað hafa verslunareigendur Nóatúns að fela fyrst þeir vísa formanni Rafiðnaðarsambands Íslands á dyr ásamt starfsmönnum ASÍ sem standa að verðlagseftirlitinu? Af hverju í ósköpunum má almenningur ekki vita hvernig vöruverð þróast í búðum og fá samanburð á vörum mismunandi verslanakeðja? Af hverju eigum við, almenningur, að leyfa þessum aðilum að komast upp með að þetta! Er ekki kominn tími til að rísa upp gegn verslunum landsins, fyrst þær vilja ekki vera í liði með þjóðinni, og að allur almenningur fari í verðkannanir í enn meiri mæli og skrái á www.vertuaverdi.is
Tökum höndum saman og náum fram stöðugleika í verðlag á Íslandi í eitt skipti fyrir öll!
Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2012 | 22:29
Endalausar verðlagshækkanir!
Nú nýverið tilkynnti Landsnet að verðskrá fyrirtækisins mun hækka um 9% til almennings en um 20% til stórnotenda. Hækkun sem þessi skilar sér í hækkun á þeirri raforku sem heimili landsins kaupa og mun sá þáttur raforkunnar sem snýr að flutningi hækka um 9%. Þetta hefur jafnframt þau áhrif að verðbólga mun aukast og þar með þurfa heimili landsins öll, sama hvort sem vextir eru verðtryggðir eða óverðtryggðir, að greiða hærri vexti af lánum sínum.Þetta veldur því annarsvegar að skuldir landsmanna hækka þegar skuldir eru verðtryggðar en einnig að greiðslubyrði þeirra sem skulda óverðtryggt mun aukast.
Ef við höldum áfram þá munu laun landsmanna þurfa að hækka að lágmarki um sömu tölu til þess að halda í við verðlag enda verður ekki við það unað að laun lækki miðað við verðlag enda hefur undanfarin ár verið miðað við það að laun hækki umfram verðlag, þ.e.a.s. að kaupmáttur aukist. Síðustu kjarasamningar beindust sérstaklega að þessum þætti og því er það miður að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki dembi verðhækkunum út á markaðinn sem auka verðbólguþrýsting. Nú um áramót munu ýmsir skattar hækka á vörum sem ríkið hefur í einkasölu, svo sem áfengi og tóbak. Þessar hækkanir munu skila sér í aukinni verðbólgu, í hærra vaxtastigi Seðlabanka Íslands.
Hækkun Landsnets á stórnotendur mun einnig mögulega lenda á almenningi þessa lands næstu 10-20 árin þar sem flestir og stærstu raforkusamningar stórnotenda eru fastir og því geta raforkufyrirtæki mögulega í einhverjum tilfellum ekki hækkað verðið á rétta kaupendur heldur sækja þessa hækkun mögulega til annarra neytenda.
Það er nauðsynlegt að aðilar haldi að sér höndum ef stefna á að því að skapa stöðugleika. Launafólk mun ekki sætta sig við það að sitja eftir þegar verðbólga eykst og því verða laun að hækka umfram verðlag á komandi árum og áratug, rífleg hækkun launa er nauðsynleg til þess að jafna hlut launafólks eftir efnahagshrunið. Sé ekki vilji til þess að stuðla að stöðugleika á markaðnum þá munu rafiðnaðarmenn ekki sitja rólegir og sætta sig við minni hækkanir. Leiðrétting á kaupmætti rafiðnaðarmanna er nauðsynleg, mikil þörf er á að auka ráðstöfunartekjur félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands en þetta er sá hópur sem iðulega er talað um sem hópurinn með breiðu bökin, millitekjuhópurinn. Breiðu bökin eru ekki það breið að þau geti endalaust tekið á sig meiri útgjöld!
Við krefjumst þess að ríki, sveitarfélög og þar með opinberar stofnanir og fyrirtæki sýni gott fordæmi og haldi að sér höndum þegar kemur að verðlagshækkunum enda auka þær verðbólgu sem eykur þörf á endalausum verðlagshækkunum!
Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður RSÍ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2012 | 13:13
Svört atvinnustarfsemi og kennitöluflakk!
Töluvert hefur borið á því að fyrirtæki á vinnumarkaðnum bjóði þjónustu sína svarta, án þess að greiða skatta og gjöld til samfélagsins. Menn hafa velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á vinnumarkaðinn og hvort það sé ekki í raun eðlilegt að menn geti bjargað sér á erfiðum tímum með því að sleppa því að greiða skatta? En þá verðum við að velta fyrir okkur af hverju í ósköpunum erum við að greiða skatta og gjöld? Einnig velta menn fyrir sér af hverju í ósköpunum eru verkalýðsfélög að skipta sér að því þó svo einstaklingar og fyrirtæki standi í kennitöluflakki, er ekki eðlilegt að menn geti farið á hausinn annað slagið?
Varðandi svarta atvinnustarfsemi þá er það svo að þegar menn á vinnumarkaði selja þjónustu þá þarf að greiða af þeirri þjónustu í öllum tilfellum virðisaukaskatt. Það eru þó undantekningar á því en þær eru þá í formi endurgreiðslu frá skattinum t.d. í viðhaldi á fasteignum. Þegar menn sætta sig við að kaupa "svarta þjónustu" þá fella menn niður ávkeðinn hluta verðsins og vilja meina að þar með græði báðir aðilar. En hvað er verið að gera með þessum viðskiptum? Jú það sem gerist er að sá sem selur þjónustu með þessum hætti sleppir því að greiða virðisaukaskattinn og segir viðkomandi viðskiptavini að þar með "græða" báðir aðilar.
En í raun og veru þá græðir enginn á þessu nema sá sem seldi þjónustuna því hann vissulega tekur ekki innskatt virðisaukans en sleppir því jafnframt að greiða tekjuskatt, útsvar, launatengd gjöld (atvinnuleysistryggingasjóð, ábyrgðarsjóð launa) o.fl. gjöld af þeim launum sem hann reiknar sér við þjónustuna. Þessi gjöld eru öll notuð til þess að reka meðal annars heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Þetta er notað til þess að greiða fyrir menntakerfi okkar Íslendinga, grunnskóla landsmanna, framhaldsskóla, háskóla. Þessir fjármunir eru notaðir að einhverju leyti í að greiða rekstur samgöngukerfis (ásamt bensíngjaldi sem þeir þó væntanlega greiða).
Þannig að um leið og viðkomandi selur vinnu sína "svart" þá er kaupandi þjónustunnar að sætta sig við að jú "spara" sér virðisaukaskattinn EN JAFNFRAMT að sætta sig við að greiða sjálfur hærri skatta til þess að þjónustuaðilinn geti nýtt sér heilbrigðisþjónustuna, sent börnin sín í grunnskóla, stuðlað að aukinni menntun eldri barna sinna í framhaldsskóla o.s.frv. Hverskonar sparnaður er það? Eru allir að græða með því móti???
Af hverju ættum við Íslendingar að sætta okkur við það að halda uppi fólki sem vísvitandi leggur ekkert til samfélagsins? Það þurfa allir að getað lifað mannsæmandi lífi og það á ekki að vera á kostnað hinna. Vissulega viljum við að þeir sem sannanlega geta ekki unnið, sökum veikinda eða annarra ákveðinna ástæðna, geti framfleytt sér á mannsæmandi hátt en við eigum aldrei að sætta okkur við að þeir sem misnota kerfið geri það á okkar kostnað!
Varðandi svokallað kennitöluflakk þá hefur Rafiðnaðarsamband Íslands meðal annars krafist þess að sett verði ströng lög sem geri mönnum ekki kleyft að keyra fyrirtæki í þrot og stofna nýtt fyrirtæki samstundis sem oft á tíðum hefur þá yfirtekið allar eignir hins gjaldþrota fyrirtækis. Það hefur margítrekað gerst að fyrirtæki skipti um nafn og skömmu síðar er það tekið til gjaldþrotaskipta, nýtt fyrirtæki er stofnað sem jafnvel tekur gamla þekkta nafnið, nýja fyrirtækið "kaupir" verðmætar eignir af gamla fyrirtækinu á vel niðursettu verði. Um getur verið að ræða verkfæri, húsnæði, bifreiðar eða önnur tæki og tól sem nauðsynleg eru til að reka fyrirtækið. Síðan þegar gamla fyrirtækið er tekið til gjaldþrotaskipta þá finnast eðlilega engar eignir í fyrirtækinu. Fyrirtækið hefur ekki ráð á því að greiða starfsmönnum laun, ekki krónu, en starfsmönnum jafnvel boðin vinna hjá hinu nýja fyrirtæki. Sami gamli stóllinn notaður, sama húsnæðið, sama nafn fyrirtækis... Önnur kennitala!
En fyrirtæki benda síðan starfsmönnum á að sækja ógreidd laun í ábyrgðarsjóð launa. Þar með séu allir sáttir!? En af hverju í ósköpunum eigum við sem þjóðfélag að sætta okkur við þessa aðferðarfræði, þar sem það erum við sem greiðum á endanum brúsann. Við greiðum þetta í gegnum hærri skatta, hærri gjöld, hærra verðlag, aukna verðbólgu og þar af leiðandi lægri ráðstöfunartekjur heimilanna! Það er löngu kominn tími til þess að stöðva kennitöluflakk sem þetta og því krefst Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ þess að stjórnvöld setji lög og ströng viðurlög við athæfi sem þessu. Við krefjumst þess einnig að samtök atvinnurekenda taki á sínum félagsmönnum til þess að stöðva slíka starfsemi! Félagsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands sætta sig ekki við að greiða hærri skatta til þess að standa við bakið á þeim sem vísvitandi greiða ekki til samfélagsins!
Við eigum ekki að skipta við fyrirtæki sem standa ekki við þær skuldbindingar og reglur sem við sem þjóðfélag setjum okkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)