Færsluflokkur: Bloggar

Seðlabankinn á rangri leið?

Seðlabanki Íslands hefur gefið tóninn fyrir veturinn varðandi stýrivexti. Ákveðið var að halda þeim óbreyttum en fylgst verður vandlega með kjarasamningum. Sem sagt, það má alls ekki hækka laun fólks í samræmi við verðlag hið minnsta heldur eiga laun almennings enn að dragast aftur úr og kaupmáttur launa á að dragast saman, að mati Seðlabanka Íslands. Þeir sjá ekkert athugavert hjá sjálfum sér, hvorki þegar kemur að launahækkunum þeirra persónulega né þegar litið er til þess kerfis sem þeir vinna eftir.

Virka stýrivextir til lækkunar verðbólgu? Geta stýrivextir aukið verðbólguþrýstinginn í hagkerfinu?

Þau tól sem SÍ hefur til þess að sporna gegn verðbólgu eru svo sem ekki ýkja mörg en eitt þeirra er að breyta stýrivöxtum (þá iðulega með því að hækka stýrivexti ef verðbólga hækkar) hitt tólið er inngrip í gjaldeyrismarkað til þess að styðja við gengi íslensku krónunnar.

Það hefur reynst SÍ ógerlegt að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar undanfarinn áratug, sama hversu viðamikil inngripin eru þá hafa þau eingöngu mjög skammvinn áhrif sem síðan kalla á annað inngrip o.s.frv. Því hefur SÍ verulega dregið úr inngripum og hlýtur það að gefa til kynna að gjaldmiðillinn sé byggður á það veikum grunni að betra sé að láta hann fljóta/falla og leita "jafnvægis" með sjálfvirkum hætti.

Hin leiðin sem ég nefndi var breyting stýrivaxta. Aðferðarfræðin er einföld, sé þensla mikil sökum neyslu landans (einstaklinga og fyrirtækja) þá eykur það innflutning á vörum sem dregur úr viðskiptajöfnuði. Við flytjum meira inn í landið en við seljum út úr því. Við eyðum umfram það sem við öflum og einföld hagfræði segir að það gangi ekki upp til lengri tíma, þú ert í skuldasöfnun. Því þurfi að draga úr neyslunni. Það gerir SÍ með því að hækka stýrivextina, afborganir af lánum hækka við það og landinn hefur minna á milli handanna, dregur úr kaupum á vörum og viðskiptajöfnuðurinn jafnar sig (seljum meira úr landi en við eyðum). 

En gefum okkur að við séum ekki í þenslu ástandi, segjum sem svo að fólk rétt svo nái endum saman en að gengi íslensku krónunnar sé að gefa eftir. Þá þurfum við að skoða af hverju gengi krónunnar gefur eftir. Jú það getur verið vegna þess að markaðsaðilar hafa ekki trú á gjaldmiðlinum og vilja losna við íslenskar krónur og kaupa erlendan gjaldmiðil í staðinn. Með því veikist gengi krónunnar. 

Þá grípur SÍ inn í og ákveður að hækka stýrivextina til þess að auka áhuga fjármagnseigenda á því að eiga íslenskar krónur. Þeir fá hærri vexti í staðinn. Á móti þurfum við að treysta því að þeir haldi eignum sínum óbreyttum í íslenskum krónum. En þá vandast málin einmitt, þetta veldur því að vextir þeirra hækka, meira streymi verður úr landi í formi vaxta og þar með stöðugt flæði gjaldeyris úr landi. Það eykur um leið þrýsting á krónuna sem leiðir til aukinnar verðbólgu og skilar sér þá mögulega í hærri stýrivöxtum. Sem sagt hringrás sem nauðsynlegt er að rjúfa.

Væri ekki ráð hjá Seðlabankanum að huga frekar að lækkun stýrivaxta (hressilegri lækkun) en með því mætti draga úr flæði gjaldeyris úr landinu og þar með hafa jákvæðari áhrif á innlendan markað. Þetta myndi auka þrýsting á losun hafta enda aðilar fastir inni með íslenskar krónur sem þeir vilja ólmir losna við en geta það ekki í höftunum. En sá þrýstingur skiptir minna máli þar sem höftin eru í gildi og augljóst að flæðið verður ekki fyrr en höftin verða losuð. Þar með gæti Seðlabankinn mögulega náð einhverri stjórn á ástandinu.

Um leið og vaxtastig lækkar þá eykur það vilja fjármagnseigenda til þess að leita í aðra fjárfestingakosti og þá mögulega í íslensku atvinnulífi. 

Nú hafa ýmsir opinberir aðilar lagt til að hækka verðskrár sínar til þess að bregðast við verðbólguvæntingum. Ríkið hefur lagt til í fjárlagafrumvarpi að hækka gjaldskrár um eins og 4% eða svo. Reykjavíkurborg hefur lagt til hækkanir á ýmsum liðum eins og mataráskriftum í grunnskólunum og fleiri liðum. Þar er jafnvel verið að tala um tugi prósenta. Þetta veltur allt þráðbeint út í verðlagið. Verðbólga mælir einmitt þessa kostnaðarliði beint og hækki þeir, eins og bensín, áfengi og tóbak, þá hækkar verðlag og verðbólga eykst. 

Hvað segir Seðlabanki Íslands við hækkunum ríkis, sveitarfélaga og verslana? 

Nákvæmlega ekki neitt NEMA það að aðilar á vinnumarkaði megi alls ekki hækka laun nema um 2% hámark að öðrum kosti hækki þeir stýrivextina! Þeir telja greinilega gagnslaust að berja á fyrrnefndum aðilum sem hafa bein áhrif á verðlag í þessu landi.

Ég hvet Seðlabankamenn til þess að beina spjótum sínum að aðilum sem hækka verðskrár sínar og hætta að einblína eingöngu á kjarasamninga. Það væri jafnframt ekki úr vegi fyrir Seðlabankamenn að huga að því hvað þeir geta lagt til í erfiðri stöðu í dag án þess að horfa ætíð yfir á fölnað grasið hinum megin við lækinn á meðan ríki og sveitarfélög sækja sitt án gagnrýni!
 
Þurfum við ekki að prófa nýjar aðferðir í stað þeirra gömlu að hækka stýrivextina, það hjálpaði ekki að hækka þá í hruninu né fyrir það og eru ávísun á greiðslur úr íslensku hagkerfi sem hagkerfið hefur ekki efni á. 

Hlutföll kynjanna í stjórnum eða Gettu betur

Nú hefur verið ákveðið að kynjakvóti gildi um þátttakendur Gettur betur, spurningaþáttar á RÚV, reglan er sú að í hvoru liði mega ekki vera fleiri en 2 af hvoru kyni í liðinu. Samtals keppa 6 einstaklingar í keppninni og því geta komið upp aðstæður að tveir karlmenn eru í liðunum og 4 konur, og öfugt, eða 33% karlar og 66% konur. Vikmörkin eru sett við 33% enda ómögulegt að skipta þremur einstaklingum niður í tvo jafna hópa. Hlutfall kynja í heildarhópnum getur eingöngu orðið nákvæmlega jafnt ef annað liðið hefur 2 konur og 1 karl á meðan hitt liðið hefur 2 karla og 1 konu. Rétt er að taka fram að mér þykir afar jákvætt að aðkoma beggja kynja sé tryggð en um leið velti ég þó fyrir mér af hverju í ósköpunum við þurfum að setja okkur slíkar reglur? Velja skólarnir ekki hæfustu einstaklingana? Vilja konur ekki sitja í keppnisliðum Gettu betur eða eru konur ekki nógu duglegar að koma sér áfram í liðum skólanna, ég veit mæta vel að þær standa körlum ekki aftar í gáfum jafnvel framar.

Í byrjun september tóku í gildi breytingar á lögum um Lífeyrissjóði en þar kemur fram að í stjórn lífeyrissjóðs mega hlutföll kynja ekki fara undir 40%. Nú er það svo í þeim lífeyrissjóðum sem ég hef fylgst með að fjöldi stjórnarmanna er samtals 6 manns, líkt og í Gettu betur. Þar af eru 3 frá launþegum og 3 frá atvinnurekendum. Hugsa má þetta sem tvö "lið" sem þó vinna að sama markmiði. Sýn fólks á málefni geta verið misjöfn og ekki síður eftir því úr hvaða hópum þú kemur. Nú er það svo að í þeim lífeyrissjóði sem ég á meirihluta minna réttinda þá eru stjórnarmenn kjörnir í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu þar sem fulltrúar ákveðinna hópa mæta til kjörfundar og velja sér fulltrúa. 

Ef uppfylla á nýbreyttu lagaákvæðin um að tryggja að lágmarki 40% hlut hvors kyns í stjórninni þá gefur það auga leið að annar hópurinn þarf að tryggja það að 2 karlar sitji í stjórninni og að 1 kona taki þar sæti. Um leið verður hinn hópurinn að tryggja að eingöngu 1 karlmaður taki sæti í stjórninni fyrir þeirra hönd en tvær konur. Allar aðrar sviðsmyndir af fjölda hvors kyns er ólögleg þá fyrir utan að annar hópurinn kjósi eingöngu annað kynið en hinn hópurinn hitt kynið. Sem sagt raunveruleg hlutföll sem heimilt er að hafa eru 50% af hvoru kyni. Við getum ekki skipt einstaklingi í bæði kynin.

Þá fara málin að vandast verulega eins og komið hefur í ljós að ekki náðu allir lífeyrissjóðir að tryggja rétt hlutföll og unnið er að því að leysa úr þeirri flækju. Lögin gera það að verkum að nánast ómögulegt er að velja fulltrúa í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu enda getur sú staða komið upp að ef 6 konur næðu meirihluta atkvæðanna þá yrðu 3 karlmenn sjálfkrafa kjörnir í stjórnina þó svo að þeir fengju ekkert atkvæði. Gefum okkur að mjög umdeildur einstaklingur væri í framboði en hann næði kjöri án atkvæða vegna þess að það vantaði einstakling af hans kyni. Það hlýtur að teljast einkennilegt að geta ekki treyst fólki til þess að kjósa hæfustu einstaklingana hverju sinni óháð kyni.

Ég hef fulla trú á því að ef nægur fjöldi af frambærilegum einstaklingum gefur kost á sér til starfa sem þessara að þeir hæfustu nái kjöri. Fjölbreytni stjórna skiptir mjög miklu máli. 

En nú velti ég jafnframt fyrir mér af hverju eru ekki sett skilyrði um að hlutföll kynjanna í stjórnum lífeyrissjóða sé í samræmi við sjóðfélagahópinn sem að sjóðnum stendur? Ef konur eru 50% sjóðfélaga þá eigi að leitast við að hafa konur 50% stjórnarmanna en þá jafnframt með vikmörkum um að þær geti orðið 66,6% eða 33,3% (plús/mínus einn einstaklingur). 

Þeir sem sjá um Gettu betur áttuðu sig á því að nauðsynlegt væri að hafa eitthvað svigrúm á þessu enda gætu þau ekki skipt þriggja manna liði niður í tvo jafna hluta. Alþingi tókst hins vegar ekki að átta sig á svo einfaldri stærðfræði þegar lögunum var breytt, enda fór þessi breyting í gegn nánast án umræðu.

Næsta skref er síðan að tryggja jöfn kynjahlutföll á Alþingi og setja það í lög að þegar kosið er til Alþingis að hvort kyn hafi helming sæta. Um leið væri reyndar vikið frá því lýðræði sem við höfum getað státað okkur af og einstaklingum yrði mögulega raðað inn eftir kosningar án þess að hafa atkvæði þjóðarinnar á bakvið sig. Nýju þingi tókst ekki einu sinni að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í nefndum Alþingis þó svo að í þau sé skipað á bakvið tjöldin án atkvæðagreiðslu.

Hæfustu einstaklingarnir hljóta á njóta brautargengis þegar kosið er til hinna ýmsu trúnaðarstarfa hvort sem það er til setu á Alþingi, setu í stjórn lífeyrissjóðs já eða Gettu betur. Hlutföll ættu jafnframt enn fremur að taka mið af þeim hópi sem viðkomandi stjórn starfar fyrir en þá þarf einnig að bjóða upp á svigrúm +- 1 einstaklingur.

Liggur vilji þjóðarinnar fyrir?

Það er stór munur á því að fara í aðildarviðræður við aðila og leggja niðurstöður í atkvæðagreiðslu en að hætta viðræðum og tryggja að málið fari aldrei í atkvæðagreiðslu. Skuldbinding alþingismanna gagnvart þjóðinni er töluvert meiri þegar þeir ákveða upp á sitt einsdæmi að það eigi alls ekki að skoða möguleika þjóðarinnar í alþjóðamálum og vilja alls ekki láta slíkt komast nærri höndum þjóðarinnar að taka afstöðu til þess hvað hún vill.

Nú veit ég að MJÖG skiptar skoðanir eru um það hvort eigi að ganga inn eða ekki. Þjóðin skiptist í tvo hópa sem eru sennilega álíka stórir, annar þeirra vill mögulega ganga inn í ESB hinn alls ekki. Sá hópur sem vill sjá öll skilyrði sem okkur eru sett fyrir inngönu er þó sennilega mun stærri enda fólk úr báðum hópum sem ég nefndi hér fyrr. Það eru nefnilega töluvert margir sem vilja ekki ganga inn sem vilja samt sem áður sjá samninginn, þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu enda telja þeir þá væntanlega að þeirra grunsemdir verði staðfestar. Ókostir séu meiri en kostirnir. Síðan eru það þeir sem telja hagsmunum þjóðarinnar betur borgið innan sambandsins og þá að þjóðin njóti góðs af ýmsum þáttum má þar nefna sterkur gjaldmiðill (sem ekki er auðvelt að fella þegar efnahagsstjórn hefur verið slæm, þá með kostum og göllum þess), aðgengi að stórum viðskiptamarkaði (sem við höfum í dag í gegnum EES samninginn en getum ekki uppfyllt að öllu leyti í dag sökum slaks gjaldmiðils) og svo framvegis.

En sem sagt, einhverra hluta vegna er þjóðinni ekki treystandi til þess að segja hug sinn um það hvort klára eigi þessar viðræður og leggja síðan samning í dóm þjóðarinnar. Núverandi utanríkisráðherra hefur reyndar sagt að það eigi ekki að spyrja þjóðina fyrr en hún hafi skipt um skoðun.

Hafi skipt um skoðun...

Er hann þá hræddur um að þjóðin vilji ljúka þessum viðræðum og myndi segja já í þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda viðræðum áfram? 

Má ekki lesa það úr orðum hans, þar sem hann vill alls ekki ganga í ESB, að ef þjóðin væri á þeirri skoðun að vilja ekki ljúka viðræðum þá fengi hann rétta niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu og fullkominn stuðning við málsflutning sinn. Því væri mjög sérkennilegt að vilja ekki setja slíkt mál í atkvæðagreiðslu.

Það má telja afar hæpið að hann myndi vilja að niðurstaða atkvæðagreiðslu yrði jákvæð og því eðlilega myndi hann gera hvað hann gæti til að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu.

Þjóðin hefur aldrei verið spurð um það hvort hún vilji ganga í ESB. Það er því töluvert stór ákvörðun að taka að ætla sér ekki að spyrja þjóðina. Það er ekki óeðlilegt að þjóðin sé spurð álits þegar samningur liggur fyrir enda komin á þann tímapunkt að geta kynnt sér kröfur til inngöngu. 

Spyrjum þjóðina hvað hún vill, hvort ljúka eigi þessum viðræðum til þess að sjá samning eða þá að hætta þeim. Tilvalið væri að gera það í næstu sveitarstjórnarkosningum en með því hlýst minni kostnaður við atkvæðagreiðsluna og afstaða lægi þá fyrir. 


Lokun á USA markað vegna öryggis?

Nú þegar búið er að banna barnabílstóla frá USA sökum öryggiskrafna, sem er jákvætt að stólar sem eru ekki öruggir séu ekki á íslenskum markaði, þá hækkar verð á þessum gríðarlega öruggu barnabílstólum frá Evrópu. Um leið og lögin tóku gildi þá hækkaði verð t.d. um 33% eins og sjá má í meðfylgjandi frétt. Ég er ekkert viss um að þeir stólar séu 33% öruggari, eða að krónan hafi fallið um 33% á þessum tímamótum.

Nei, þarna sést græðgi íslenskra kaupmanna. Búið er að loka á flæði á öryggisbúnaði frá USA sem fólk hefur keypt enda ómögulegt fyrir fólk með ung börn að standa undir þeim kostnaði sem lendir á því að kaupa barnavörur hér á Íslandi. Það er ekki bara bílstólar sem þarf að fjárfesta í. Barnavagnar sem eru komnir hátt á annað hundraðið og síðan þessar hefðbundnu rekstrarvörur, bleygjur, blautþurrkur og mögulega þurrmjólk (þegar þannig ber undir).

Hér á Íslandi þurfum við að fara að huga betur að fjölskyldufólki til þess að draga markvisst úr rekstarkostnaði þess. Að sjálfsögðu ætti öryggisbúnaður að vera mjög ódýr og spurning hvort hann mætti vera niðurgreiddur af hinu opinbera. T.d. mætti nýta brot af eldsneytisgjaldinu í þann þátt (án þess að hækka það gjald).

En getur það gengið hér á landi? Yrðu vörurnar lækkaðar í verði, myndi það skila sér til neytenda eða enda eins og þegar virðisaukaskattturinn var lækkaður á matvörum á sínum tíma og skilaði sér að öllum líkindum að stærstum hluta til kaupmanna?

Þurfum við að hafa "ríkis"-barnabílstóla til að tryggja lágt verð? 


mbl.is Barnabílstóllinn hækkaði um 33%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilboð á bensíni og díselolíu - Afsláttur eða gott verð???

Í dag var þrusu afsláttur á öllum bensínstöðvum að ég held. Síminn stoppaði ekki framan af degi þar sem N1 reið á vaðið og tilkynnti mér í SMS að afsláttur væri 12 krónur þann daginn. Næst kom SMS frá Atlantsolíu og sami afsláttur, síðan fylgdi ÓB á eftir. Allir með sama afslátt. Ég kíkti á heimasíðu Orkunnar og viti menn, 12 krónu afsláttur. Mikið var ég ánægður að sjá þennan afslátt þó svo að hann sé ekki nema 2 krónum meiri en hefðbundinn afsláttur er hjá mér í dag. Ég skráði mig í Afsláttar þrep Orkunnar fyrir síðustu mánaðarmót og þar sem ég nota alltof mikið eldsneyti í hverjum mánuði þá fæ ég 10 krónu afslátt á “minni” stöð.


En jæja ég var nokkuð hress með þetta eins og eflaust margir aðrir. Síðan varð mér á að keyra framhjá bensínstöð Atlantsolíu við Sæbraut. Þar sá ég að útsöluverð bensíns var í 241,3 (eða þar um bil). Þá hrökk ég við og trúði ekki mínum eigin augum, ég hafði keypt bensín fyrir rúmri viku og þá kostaði líterinn (á skilti) 236,2 kr. Því næst átti ég leið hjá Orku-stöð við Miklubraut og sá sama verðið þar, eða reyndar eins og venjulega 10 aurum lægra en hjá AO.


Sem sagt á aðeins einni viku hafði bensín hækkað um 5 krónur og ég held að þessi hækkun hafi komið til framkvæmda á síðustu dögum en ég fylgist nokkuð vel með breytingum á verðlagi (eða reyni það eftir bestu getu en það reynist mjög erfitt þar sem verð hækkar og lækkar ansi oft). Hef ekki fundið fréttir um hækkanir hér heima, einu fréttir um breytingar á olíuverði er erlendis frá og það reyndar lækkanir en það er nú önnur saga.


En þetta er algjört snilldarbragð hjá olíufélögunum að hækka verðið, veita “ríflegan” afslátt og láta nýja háa verðið gilda eftir það. Því allir gátu fengið góðan afslátt, reyndar af háu verði. Við gerum ekki athugasemdir daginn eftir því það var svo flottur afsláttur í gær og í raun spáðum ekkert mikið í verðinu daginn áður. En er það ekki afslátturinn sem gildir er það ekki eða hvað?


Auglýsing Múrbúðarinnar hljómar endalaust í hausnum á mér: “Afsláttur eða gott verð?” Hvort viljum við? Jú við viljum alltaf góðan afslátt, þeim mun hærri sem hann er þeim mun betur líður okkur, af því að við erum að fá vöruna á “betri kjörum” en náunginn við hliðina á okkur eða það teljum við.


En mér finnst eins og ég hafi verið hafður að fífli í dag en leið örlítið betur af því ég fékk svo góðan afslátt (þó svo verðið hafi á endanum verið 3 krónum hærra en fyrir viku).


En við verðum víst að sætta okkur við þetta, krónan fellur eftir nokkuð góða styrkingu að undanförnu. Okkur er sagt að það séu svo mikil verðmæti í því að hafa krónuna. Hún hjálpar okkur, segja sumir. Ég er ekki alveg sannfærður um það.

 

En hversu margir vissu að verðið hafði hækkað um 5 krónur? 



Formanni Rafiðnaðarsambands Íslands vísað á dyr í Nóatúni!

Í gær tók formaður Rafiðnaðarsambands Íslands þátt í verðlagseftirliti ASÍ. Var það hlutverk formanns að taka niður verð á fyrirframákveðnum vörum í Nóatúnsverslun við Nóatún í Reykjavík. Nákvæmlega var búið að skilgreina hvaða vörur átti að skoða, hversu mikið magn var í ákveðinni einingu og hvert verðið á henni væri eins og verklagsreglur ASÍ skýra mjög skilmerkilega.Read More

Það er skemmst frá því að segja að formanni RSÍ var vísað á dyr í miðri könnun og ítrekað var að hann mætti ekki skrá niður vöruverð þessarar verslunar. Skýr skilaboð voru frá stjórnendum Kaupáss að Verðlagseftirlit ASÍ má alls ekki taka niður verð vara búðarinnar! Ítrekað var óskað eftir að fá að ræða við verslunarstjóra sem lét ekki ná í sig þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanns. Formanni RSÍ var bannað að nýta þær upplýsingar sem hann náði að skrifa niður.

Það er virkilega sérkennilegt að þeir einu sem ekki hafa heimild til þess að skoða vöruverð er sá aðili sem miðlar upplýsingum til almennings um vöruverð viðkomandi verslana. Starfsmenn Bónuss fá til að mynda að skrá niður allt vöruverð búðarinnar rafrænt. Er þetta gert til þess að verlsanir geti skipt á milli sín þeim gróða sem almenningur verður af? Getur verið að þetta sé í raun ólöglegt samráð verslanakeðjanna sem stuðlar að því að gera neytendum ómögulegt að átta sig á verðlagi og velta hækkunum sífellt beint út í verðlagið sem hækkar skuldir og eykur greiðslubyrgði heimilanna?

Því hefur verið kastað fram af hálfu þessara aðila að verðlagseftirlit ASÍ standi ekki rétt að þessu eftirliti, ekki sé verið að bera saman sömu vörur. Þetta er RANGT! Nú hef ég reynt þetta sjálfur, ég versla mikið inn fyrir heimilið og þekki því vel til verslana, verið er að bera saman nákvæmlega sömu vörur í mismunandi verslunum. Verð er skráð niður á vörum sem innihalda nákvæmlega jafn mikið magn af viðkomandi varningi, í jafnstórum einingum. Jafnframt er skráð niður lægsta vöruverð tiltekinna flokka eins og lægsta fáanlega lítraverð á Léttmjólk.

Ef þessi aðferðarfræði ASÍ er röng þá má jafnframt spyrja hvernig Hagstofa Íslands getur tryggt það að vísitala neysluverðs (notuð til verðbólguútreikninga) sé rétt skráð? Hagstofan hringir í fjölda fyrirtækja og óskar eftir verðupplýsingum á tilteknum vörum í gegnum síma, Hagstofan fer í verslanir og framkvæmir könnun með sama hætti og ASÍ. Verslanir senda inn lista til Hagstofunnar með verðum ákveðinna vara sem Hagstofan óskar eftir.

Nú spyr ég sem leikmaður: Er eðlilegt að aðilar sem geta haft bein áhrif á verð vöru sendi Hagstofunni vöruverð rafrænt eða í gegnum síma? Gefur slík könnun nægilega góðan grunn til þess að mynda vísitölu sem hefur áhrif á allar skuldir og hefur bein áhrif á vaxtastig í landinu með hærra vöruverði og aukinni verðbólgu?

Hvað hafa verslunareigendur Nóatúns að fela fyrst þeir vísa formanni Rafiðnaðarsambands Íslands á dyr ásamt starfsmönnum ASÍ sem standa að verðlagseftirlitinu? Af hverju í ósköpunum má almenningur ekki vita hvernig vöruverð þróast í búðum og fá samanburð á vörum mismunandi verslanakeðja? Af hverju eigum við, almenningur, að leyfa þessum aðilum að komast upp með að þetta! Er ekki kominn tími til að rísa upp gegn verslunum landsins, fyrst þær vilja ekki vera í liði með þjóðinni, og að allur almenningur fari í verðkannanir í enn meiri mæli og skrái á www.vertuaverdi.is

Tökum höndum saman og náum fram stöðugleika í verðlag á Íslandi í eitt skipti fyrir öll!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands


Endalausar verðlagshækkanir!

Nú nýverið tilkynnti Landsnet að verðskrá fyrirtækisins mun hækka um 9% til almennings en um 20% til stórnotenda. Hækkun sem þessi skilar sér í hækkun á þeirri raforku sem heimili landsins kaupa og mun sá þáttur raforkunnar sem snýr að flutningi hækka um 9%. Þetta hefur jafnframt þau áhrif að verðbólga mun aukast og þar með þurfa heimili landsins öll, sama hvort sem vextir eru verðtryggðir eða óverðtryggðir, að greiða hærri vexti af lánum sínum.Þetta veldur því annarsvegar að skuldir landsmanna hækka þegar skuldir eru verðtryggðar en einnig að greiðslubyrði þeirra sem skulda óverðtryggt mun aukast.

Ef við höldum áfram þá munu laun landsmanna þurfa að hækka að lágmarki um sömu tölu til þess að halda í við verðlag enda verður ekki við það unað að laun lækki miðað við verðlag enda hefur undanfarin ár verið miðað við það að laun hækki umfram verðlag, þ.e.a.s. að kaupmáttur aukist. Síðustu kjarasamningar beindust sérstaklega að þessum þætti og því er það miður að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki dembi verðhækkunum út á markaðinn sem auka verðbólguþrýsting. Nú um áramót munu ýmsir skattar hækka á vörum sem ríkið hefur í einkasölu, svo sem áfengi og tóbak. Þessar hækkanir munu skila sér í aukinni verðbólgu, í hærra vaxtastigi Seðlabanka Íslands.

Hækkun Landsnets á stórnotendur mun einnig mögulega lenda á almenningi þessa lands næstu 10-20 árin þar sem flestir og stærstu raforkusamningar stórnotenda eru fastir og því geta raforkufyrirtæki mögulega í einhverjum tilfellum ekki hækkað verðið á rétta kaupendur heldur sækja þessa hækkun mögulega til annarra neytenda.

Það er nauðsynlegt að aðilar haldi að sér höndum ef stefna á að því að skapa stöðugleika. Launafólk mun ekki sætta sig við það að sitja eftir þegar verðbólga eykst og því verða laun að hækka umfram verðlag á komandi árum og áratug, rífleg hækkun launa er nauðsynleg til þess að jafna hlut launafólks eftir efnahagshrunið. Sé ekki vilji til þess að stuðla að stöðugleika á markaðnum þá munu rafiðnaðarmenn ekki sitja rólegir og sætta sig við minni hækkanir. Leiðrétting á kaupmætti rafiðnaðarmanna er nauðsynleg, mikil þörf er á að auka ráðstöfunartekjur félagsmanna Rafiðnaðarsambands Íslands en þetta er sá hópur sem iðulega er talað um sem hópurinn með breiðu bökin, millitekjuhópurinn. Breiðu bökin eru ekki það breið að þau geti endalaust tekið á sig meiri útgjöld!

Við krefjumst þess að ríki, sveitarfélög og þar með opinberar stofnanir og fyrirtæki sýni gott fordæmi og haldi að sér höndum þegar kemur að verðlagshækkunum enda auka þær verðbólgu sem eykur þörf á endalausum verðlagshækkunum!

Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður RSÍ


Svört atvinnustarfsemi og kennitöluflakk!

Töluvert hefur borið á því að fyrirtæki á vinnumarkaðnum bjóði þjónustu sína svarta, án þess að greiða skatta og gjöld til samfélagsins. Menn hafa velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á vinnumarkaðinn og hvort það sé ekki í raun eðlilegt að menn geti bjargað sér á erfiðum tímum með því að sleppa því að greiða skatta? En þá verðum við að velta fyrir okkur af hverju í ósköpunum erum við að greiða skatta og gjöld? Einnig velta menn fyrir sér af hverju í ósköpunum eru verkalýðsfélög að skipta sér að því þó svo einstaklingar og fyrirtæki standi í kennitöluflakki, er ekki eðlilegt að menn geti farið á hausinn annað slagið?

Varðandi svarta atvinnustarfsemi þá er það svo að þegar menn á vinnumarkaði selja þjónustu þá þarf að greiða af þeirri þjónustu í öllum tilfellum virðisaukaskatt. Það eru þó undantekningar á því en þær eru þá í formi endurgreiðslu frá skattinum t.d. í viðhaldi á fasteignum. Þegar menn sætta sig við að kaupa "svarta þjónustu" þá fella menn niður ávkeðinn hluta verðsins og vilja meina að þar með græði báðir aðilar. En hvað er verið að gera með þessum viðskiptum? Jú það sem gerist er að sá sem selur þjónustu með þessum hætti sleppir því að greiða virðisaukaskattinn og segir viðkomandi viðskiptavini að þar með "græða" báðir aðilar.

En í raun og veru þá græðir enginn á þessu nema sá sem seldi þjónustuna því hann vissulega tekur ekki innskatt virðisaukans en sleppir því jafnframt að greiða tekjuskatt, útsvar, launatengd gjöld (atvinnuleysistryggingasjóð, ábyrgðarsjóð launa) o.fl. gjöld af þeim launum sem hann reiknar sér við þjónustuna. Þessi gjöld eru öll notuð til þess að reka meðal annars heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Þetta er notað til þess að greiða fyrir menntakerfi okkar Íslendinga, grunnskóla landsmanna, framhaldsskóla, háskóla. Þessir fjármunir eru notaðir að einhverju leyti í að greiða rekstur samgöngukerfis (ásamt bensíngjaldi sem þeir þó væntanlega greiða).

Þannig að um leið og viðkomandi selur vinnu sína "svart" þá er kaupandi þjónustunnar að sætta sig við að jú "spara" sér virðisaukaskattinn EN JAFNFRAMT að sætta sig við að greiða sjálfur hærri skatta til þess að þjónustuaðilinn geti nýtt sér heilbrigðisþjónustuna, sent börnin sín í grunnskóla, stuðlað að aukinni menntun eldri barna sinna í framhaldsskóla o.s.frv. Hverskonar sparnaður er það? Eru allir að græða með því móti???

Af hverju ættum við Íslendingar að sætta okkur við það að halda uppi fólki sem vísvitandi leggur ekkert til samfélagsins? Það þurfa allir að getað lifað mannsæmandi lífi og það á ekki að vera á kostnað hinna. Vissulega viljum við að þeir sem sannanlega geta ekki unnið, sökum veikinda eða annarra ákveðinna ástæðna, geti framfleytt sér á mannsæmandi hátt en við eigum aldrei að sætta okkur við að þeir sem misnota kerfið geri það á okkar kostnað!

Varðandi svokallað kennitöluflakk þá hefur Rafiðnaðarsamband Íslands meðal annars krafist þess að sett verði ströng lög sem geri mönnum ekki kleyft að keyra fyrirtæki í þrot og stofna nýtt fyrirtæki samstundis sem oft á tíðum hefur þá yfirtekið allar eignir hins gjaldþrota fyrirtækis. Það hefur margítrekað gerst að fyrirtæki skipti um nafn og skömmu síðar er það tekið til gjaldþrotaskipta, nýtt fyrirtæki er stofnað sem jafnvel tekur gamla þekkta nafnið, nýja fyrirtækið "kaupir" verðmætar eignir af gamla fyrirtækinu á vel niðursettu verði. Um getur verið að ræða verkfæri, húsnæði, bifreiðar eða önnur tæki og tól sem nauðsynleg eru til að reka fyrirtækið. Síðan þegar gamla fyrirtækið er tekið til gjaldþrotaskipta þá finnast eðlilega engar eignir í fyrirtækinu. Fyrirtækið hefur ekki ráð á því að greiða starfsmönnum laun, ekki krónu, en starfsmönnum jafnvel boðin vinna hjá hinu nýja fyrirtæki. Sami gamli stóllinn notaður, sama húsnæðið, sama nafn fyrirtækis... Önnur kennitala!

En fyrirtæki benda síðan starfsmönnum á að sækja ógreidd laun í ábyrgðarsjóð launa. Þar með séu allir sáttir!? En af hverju í ósköpunum eigum við sem þjóðfélag að sætta okkur við þessa aðferðarfræði, þar sem það erum við sem greiðum á endanum brúsann. Við greiðum þetta í gegnum hærri skatta, hærri gjöld, hærra verðlag, aukna verðbólgu og þar af leiðandi lægri ráðstöfunartekjur heimilanna! Það er löngu kominn tími til þess að stöðva kennitöluflakk sem þetta og því krefst Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ þess að stjórnvöld setji lög og ströng viðurlög við athæfi sem þessu. Við krefjumst þess einnig að samtök atvinnurekenda taki á sínum félagsmönnum til þess að stöðva slíka starfsemi! Félagsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands sætta sig ekki við að greiða hærri skatta til þess að standa við bakið á þeim sem vísvitandi greiða ekki til samfélagsins!

Við eigum ekki að skipta við fyrirtæki sem standa ekki við þær skuldbindingar og reglur sem við sem þjóðfélag setjum okkur!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband