Seðlabankinn á rangri leið?

Seðlabanki Íslands hefur gefið tóninn fyrir veturinn varðandi stýrivexti. Ákveðið var að halda þeim óbreyttum en fylgst verður vandlega með kjarasamningum. Sem sagt, það má alls ekki hækka laun fólks í samræmi við verðlag hið minnsta heldur eiga laun almennings enn að dragast aftur úr og kaupmáttur launa á að dragast saman, að mati Seðlabanka Íslands. Þeir sjá ekkert athugavert hjá sjálfum sér, hvorki þegar kemur að launahækkunum þeirra persónulega né þegar litið er til þess kerfis sem þeir vinna eftir.

Virka stýrivextir til lækkunar verðbólgu? Geta stýrivextir aukið verðbólguþrýstinginn í hagkerfinu?

Þau tól sem SÍ hefur til þess að sporna gegn verðbólgu eru svo sem ekki ýkja mörg en eitt þeirra er að breyta stýrivöxtum (þá iðulega með því að hækka stýrivexti ef verðbólga hækkar) hitt tólið er inngrip í gjaldeyrismarkað til þess að styðja við gengi íslensku krónunnar.

Það hefur reynst SÍ ógerlegt að hafa áhrif á gengi íslensku krónunnar undanfarinn áratug, sama hversu viðamikil inngripin eru þá hafa þau eingöngu mjög skammvinn áhrif sem síðan kalla á annað inngrip o.s.frv. Því hefur SÍ verulega dregið úr inngripum og hlýtur það að gefa til kynna að gjaldmiðillinn sé byggður á það veikum grunni að betra sé að láta hann fljóta/falla og leita "jafnvægis" með sjálfvirkum hætti.

Hin leiðin sem ég nefndi var breyting stýrivaxta. Aðferðarfræðin er einföld, sé þensla mikil sökum neyslu landans (einstaklinga og fyrirtækja) þá eykur það innflutning á vörum sem dregur úr viðskiptajöfnuði. Við flytjum meira inn í landið en við seljum út úr því. Við eyðum umfram það sem við öflum og einföld hagfræði segir að það gangi ekki upp til lengri tíma, þú ert í skuldasöfnun. Því þurfi að draga úr neyslunni. Það gerir SÍ með því að hækka stýrivextina, afborganir af lánum hækka við það og landinn hefur minna á milli handanna, dregur úr kaupum á vörum og viðskiptajöfnuðurinn jafnar sig (seljum meira úr landi en við eyðum). 

En gefum okkur að við séum ekki í þenslu ástandi, segjum sem svo að fólk rétt svo nái endum saman en að gengi íslensku krónunnar sé að gefa eftir. Þá þurfum við að skoða af hverju gengi krónunnar gefur eftir. Jú það getur verið vegna þess að markaðsaðilar hafa ekki trú á gjaldmiðlinum og vilja losna við íslenskar krónur og kaupa erlendan gjaldmiðil í staðinn. Með því veikist gengi krónunnar. 

Þá grípur SÍ inn í og ákveður að hækka stýrivextina til þess að auka áhuga fjármagnseigenda á því að eiga íslenskar krónur. Þeir fá hærri vexti í staðinn. Á móti þurfum við að treysta því að þeir haldi eignum sínum óbreyttum í íslenskum krónum. En þá vandast málin einmitt, þetta veldur því að vextir þeirra hækka, meira streymi verður úr landi í formi vaxta og þar með stöðugt flæði gjaldeyris úr landi. Það eykur um leið þrýsting á krónuna sem leiðir til aukinnar verðbólgu og skilar sér þá mögulega í hærri stýrivöxtum. Sem sagt hringrás sem nauðsynlegt er að rjúfa.

Væri ekki ráð hjá Seðlabankanum að huga frekar að lækkun stýrivaxta (hressilegri lækkun) en með því mætti draga úr flæði gjaldeyris úr landinu og þar með hafa jákvæðari áhrif á innlendan markað. Þetta myndi auka þrýsting á losun hafta enda aðilar fastir inni með íslenskar krónur sem þeir vilja ólmir losna við en geta það ekki í höftunum. En sá þrýstingur skiptir minna máli þar sem höftin eru í gildi og augljóst að flæðið verður ekki fyrr en höftin verða losuð. Þar með gæti Seðlabankinn mögulega náð einhverri stjórn á ástandinu.

Um leið og vaxtastig lækkar þá eykur það vilja fjármagnseigenda til þess að leita í aðra fjárfestingakosti og þá mögulega í íslensku atvinnulífi. 

Nú hafa ýmsir opinberir aðilar lagt til að hækka verðskrár sínar til þess að bregðast við verðbólguvæntingum. Ríkið hefur lagt til í fjárlagafrumvarpi að hækka gjaldskrár um eins og 4% eða svo. Reykjavíkurborg hefur lagt til hækkanir á ýmsum liðum eins og mataráskriftum í grunnskólunum og fleiri liðum. Þar er jafnvel verið að tala um tugi prósenta. Þetta veltur allt þráðbeint út í verðlagið. Verðbólga mælir einmitt þessa kostnaðarliði beint og hækki þeir, eins og bensín, áfengi og tóbak, þá hækkar verðlag og verðbólga eykst. 

Hvað segir Seðlabanki Íslands við hækkunum ríkis, sveitarfélaga og verslana? 

Nákvæmlega ekki neitt NEMA það að aðilar á vinnumarkaði megi alls ekki hækka laun nema um 2% hámark að öðrum kosti hækki þeir stýrivextina! Þeir telja greinilega gagnslaust að berja á fyrrnefndum aðilum sem hafa bein áhrif á verðlag í þessu landi.

Ég hvet Seðlabankamenn til þess að beina spjótum sínum að aðilum sem hækka verðskrár sínar og hætta að einblína eingöngu á kjarasamninga. Það væri jafnframt ekki úr vegi fyrir Seðlabankamenn að huga að því hvað þeir geta lagt til í erfiðri stöðu í dag án þess að horfa ætíð yfir á fölnað grasið hinum megin við lækinn á meðan ríki og sveitarfélög sækja sitt án gagnrýni!
 
Þurfum við ekki að prófa nýjar aðferðir í stað þeirra gömlu að hækka stýrivextina, það hjálpaði ekki að hækka þá í hruninu né fyrir það og eru ávísun á greiðslur úr íslensku hagkerfi sem hagkerfið hefur ekki efni á. 

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband