Svört atvinnustarfsemi og kennitöluflakk!

Töluvert hefur borið á því að fyrirtæki á vinnumarkaðnum bjóði þjónustu sína svarta, án þess að greiða skatta og gjöld til samfélagsins. Menn hafa velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á vinnumarkaðinn og hvort það sé ekki í raun eðlilegt að menn geti bjargað sér á erfiðum tímum með því að sleppa því að greiða skatta? En þá verðum við að velta fyrir okkur af hverju í ósköpunum erum við að greiða skatta og gjöld? Einnig velta menn fyrir sér af hverju í ósköpunum eru verkalýðsfélög að skipta sér að því þó svo einstaklingar og fyrirtæki standi í kennitöluflakki, er ekki eðlilegt að menn geti farið á hausinn annað slagið?

Varðandi svarta atvinnustarfsemi þá er það svo að þegar menn á vinnumarkaði selja þjónustu þá þarf að greiða af þeirri þjónustu í öllum tilfellum virðisaukaskatt. Það eru þó undantekningar á því en þær eru þá í formi endurgreiðslu frá skattinum t.d. í viðhaldi á fasteignum. Þegar menn sætta sig við að kaupa "svarta þjónustu" þá fella menn niður ávkeðinn hluta verðsins og vilja meina að þar með græði báðir aðilar. En hvað er verið að gera með þessum viðskiptum? Jú það sem gerist er að sá sem selur þjónustu með þessum hætti sleppir því að greiða virðisaukaskattinn og segir viðkomandi viðskiptavini að þar með "græða" báðir aðilar.

En í raun og veru þá græðir enginn á þessu nema sá sem seldi þjónustuna því hann vissulega tekur ekki innskatt virðisaukans en sleppir því jafnframt að greiða tekjuskatt, útsvar, launatengd gjöld (atvinnuleysistryggingasjóð, ábyrgðarsjóð launa) o.fl. gjöld af þeim launum sem hann reiknar sér við þjónustuna. Þessi gjöld eru öll notuð til þess að reka meðal annars heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga. Þetta er notað til þess að greiða fyrir menntakerfi okkar Íslendinga, grunnskóla landsmanna, framhaldsskóla, háskóla. Þessir fjármunir eru notaðir að einhverju leyti í að greiða rekstur samgöngukerfis (ásamt bensíngjaldi sem þeir þó væntanlega greiða).

Þannig að um leið og viðkomandi selur vinnu sína "svart" þá er kaupandi þjónustunnar að sætta sig við að jú "spara" sér virðisaukaskattinn EN JAFNFRAMT að sætta sig við að greiða sjálfur hærri skatta til þess að þjónustuaðilinn geti nýtt sér heilbrigðisþjónustuna, sent börnin sín í grunnskóla, stuðlað að aukinni menntun eldri barna sinna í framhaldsskóla o.s.frv. Hverskonar sparnaður er það? Eru allir að græða með því móti???

Af hverju ættum við Íslendingar að sætta okkur við það að halda uppi fólki sem vísvitandi leggur ekkert til samfélagsins? Það þurfa allir að getað lifað mannsæmandi lífi og það á ekki að vera á kostnað hinna. Vissulega viljum við að þeir sem sannanlega geta ekki unnið, sökum veikinda eða annarra ákveðinna ástæðna, geti framfleytt sér á mannsæmandi hátt en við eigum aldrei að sætta okkur við að þeir sem misnota kerfið geri það á okkar kostnað!

Varðandi svokallað kennitöluflakk þá hefur Rafiðnaðarsamband Íslands meðal annars krafist þess að sett verði ströng lög sem geri mönnum ekki kleyft að keyra fyrirtæki í þrot og stofna nýtt fyrirtæki samstundis sem oft á tíðum hefur þá yfirtekið allar eignir hins gjaldþrota fyrirtækis. Það hefur margítrekað gerst að fyrirtæki skipti um nafn og skömmu síðar er það tekið til gjaldþrotaskipta, nýtt fyrirtæki er stofnað sem jafnvel tekur gamla þekkta nafnið, nýja fyrirtækið "kaupir" verðmætar eignir af gamla fyrirtækinu á vel niðursettu verði. Um getur verið að ræða verkfæri, húsnæði, bifreiðar eða önnur tæki og tól sem nauðsynleg eru til að reka fyrirtækið. Síðan þegar gamla fyrirtækið er tekið til gjaldþrotaskipta þá finnast eðlilega engar eignir í fyrirtækinu. Fyrirtækið hefur ekki ráð á því að greiða starfsmönnum laun, ekki krónu, en starfsmönnum jafnvel boðin vinna hjá hinu nýja fyrirtæki. Sami gamli stóllinn notaður, sama húsnæðið, sama nafn fyrirtækis... Önnur kennitala!

En fyrirtæki benda síðan starfsmönnum á að sækja ógreidd laun í ábyrgðarsjóð launa. Þar með séu allir sáttir!? En af hverju í ósköpunum eigum við sem þjóðfélag að sætta okkur við þessa aðferðarfræði, þar sem það erum við sem greiðum á endanum brúsann. Við greiðum þetta í gegnum hærri skatta, hærri gjöld, hærra verðlag, aukna verðbólgu og þar af leiðandi lægri ráðstöfunartekjur heimilanna! Það er löngu kominn tími til þess að stöðva kennitöluflakk sem þetta og því krefst Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ þess að stjórnvöld setji lög og ströng viðurlög við athæfi sem þessu. Við krefjumst þess einnig að samtök atvinnurekenda taki á sínum félagsmönnum til þess að stöðva slíka starfsemi! Félagsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands sætta sig ekki við að greiða hærri skatta til þess að standa við bakið á þeim sem vísvitandi greiða ekki til samfélagsins!

Við eigum ekki að skipta við fyrirtæki sem standa ekki við þær skuldbindingar og reglur sem við sem þjóðfélag setjum okkur!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband