Hlutföll kynjanna í stjórnum eða Gettu betur

Nú hefur verið ákveðið að kynjakvóti gildi um þátttakendur Gettur betur, spurningaþáttar á RÚV, reglan er sú að í hvoru liði mega ekki vera fleiri en 2 af hvoru kyni í liðinu. Samtals keppa 6 einstaklingar í keppninni og því geta komið upp aðstæður að tveir karlmenn eru í liðunum og 4 konur, og öfugt, eða 33% karlar og 66% konur. Vikmörkin eru sett við 33% enda ómögulegt að skipta þremur einstaklingum niður í tvo jafna hópa. Hlutfall kynja í heildarhópnum getur eingöngu orðið nákvæmlega jafnt ef annað liðið hefur 2 konur og 1 karl á meðan hitt liðið hefur 2 karla og 1 konu. Rétt er að taka fram að mér þykir afar jákvætt að aðkoma beggja kynja sé tryggð en um leið velti ég þó fyrir mér af hverju í ósköpunum við þurfum að setja okkur slíkar reglur? Velja skólarnir ekki hæfustu einstaklingana? Vilja konur ekki sitja í keppnisliðum Gettu betur eða eru konur ekki nógu duglegar að koma sér áfram í liðum skólanna, ég veit mæta vel að þær standa körlum ekki aftar í gáfum jafnvel framar.

Í byrjun september tóku í gildi breytingar á lögum um Lífeyrissjóði en þar kemur fram að í stjórn lífeyrissjóðs mega hlutföll kynja ekki fara undir 40%. Nú er það svo í þeim lífeyrissjóðum sem ég hef fylgst með að fjöldi stjórnarmanna er samtals 6 manns, líkt og í Gettu betur. Þar af eru 3 frá launþegum og 3 frá atvinnurekendum. Hugsa má þetta sem tvö "lið" sem þó vinna að sama markmiði. Sýn fólks á málefni geta verið misjöfn og ekki síður eftir því úr hvaða hópum þú kemur. Nú er það svo að í þeim lífeyrissjóði sem ég á meirihluta minna réttinda þá eru stjórnarmenn kjörnir í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu þar sem fulltrúar ákveðinna hópa mæta til kjörfundar og velja sér fulltrúa. 

Ef uppfylla á nýbreyttu lagaákvæðin um að tryggja að lágmarki 40% hlut hvors kyns í stjórninni þá gefur það auga leið að annar hópurinn þarf að tryggja það að 2 karlar sitji í stjórninni og að 1 kona taki þar sæti. Um leið verður hinn hópurinn að tryggja að eingöngu 1 karlmaður taki sæti í stjórninni fyrir þeirra hönd en tvær konur. Allar aðrar sviðsmyndir af fjölda hvors kyns er ólögleg þá fyrir utan að annar hópurinn kjósi eingöngu annað kynið en hinn hópurinn hitt kynið. Sem sagt raunveruleg hlutföll sem heimilt er að hafa eru 50% af hvoru kyni. Við getum ekki skipt einstaklingi í bæði kynin.

Þá fara málin að vandast verulega eins og komið hefur í ljós að ekki náðu allir lífeyrissjóðir að tryggja rétt hlutföll og unnið er að því að leysa úr þeirri flækju. Lögin gera það að verkum að nánast ómögulegt er að velja fulltrúa í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu enda getur sú staða komið upp að ef 6 konur næðu meirihluta atkvæðanna þá yrðu 3 karlmenn sjálfkrafa kjörnir í stjórnina þó svo að þeir fengju ekkert atkvæði. Gefum okkur að mjög umdeildur einstaklingur væri í framboði en hann næði kjöri án atkvæða vegna þess að það vantaði einstakling af hans kyni. Það hlýtur að teljast einkennilegt að geta ekki treyst fólki til þess að kjósa hæfustu einstaklingana hverju sinni óháð kyni.

Ég hef fulla trú á því að ef nægur fjöldi af frambærilegum einstaklingum gefur kost á sér til starfa sem þessara að þeir hæfustu nái kjöri. Fjölbreytni stjórna skiptir mjög miklu máli. 

En nú velti ég jafnframt fyrir mér af hverju eru ekki sett skilyrði um að hlutföll kynjanna í stjórnum lífeyrissjóða sé í samræmi við sjóðfélagahópinn sem að sjóðnum stendur? Ef konur eru 50% sjóðfélaga þá eigi að leitast við að hafa konur 50% stjórnarmanna en þá jafnframt með vikmörkum um að þær geti orðið 66,6% eða 33,3% (plús/mínus einn einstaklingur). 

Þeir sem sjá um Gettu betur áttuðu sig á því að nauðsynlegt væri að hafa eitthvað svigrúm á þessu enda gætu þau ekki skipt þriggja manna liði niður í tvo jafna hluta. Alþingi tókst hins vegar ekki að átta sig á svo einfaldri stærðfræði þegar lögunum var breytt, enda fór þessi breyting í gegn nánast án umræðu.

Næsta skref er síðan að tryggja jöfn kynjahlutföll á Alþingi og setja það í lög að þegar kosið er til Alþingis að hvort kyn hafi helming sæta. Um leið væri reyndar vikið frá því lýðræði sem við höfum getað státað okkur af og einstaklingum yrði mögulega raðað inn eftir kosningar án þess að hafa atkvæði þjóðarinnar á bakvið sig. Nýju þingi tókst ekki einu sinni að tryggja jöfn hlutföll kynjanna í nefndum Alþingis þó svo að í þau sé skipað á bakvið tjöldin án atkvæðagreiðslu.

Hæfustu einstaklingarnir hljóta á njóta brautargengis þegar kosið er til hinna ýmsu trúnaðarstarfa hvort sem það er til setu á Alþingi, setu í stjórn lífeyrissjóðs já eða Gettu betur. Hlutföll ættu jafnframt enn fremur að taka mið af þeim hópi sem viðkomandi stjórn starfar fyrir en þá þarf einnig að bjóða upp á svigrúm +- 1 einstaklingur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband