Formanni Rafiðnaðarsambands Íslands vísað á dyr í Nóatúni!

Í gær tók formaður Rafiðnaðarsambands Íslands þátt í verðlagseftirliti ASÍ. Var það hlutverk formanns að taka niður verð á fyrirframákveðnum vörum í Nóatúnsverslun við Nóatún í Reykjavík. Nákvæmlega var búið að skilgreina hvaða vörur átti að skoða, hversu mikið magn var í ákveðinni einingu og hvert verðið á henni væri eins og verklagsreglur ASÍ skýra mjög skilmerkilega.Read More

Það er skemmst frá því að segja að formanni RSÍ var vísað á dyr í miðri könnun og ítrekað var að hann mætti ekki skrá niður vöruverð þessarar verslunar. Skýr skilaboð voru frá stjórnendum Kaupáss að Verðlagseftirlit ASÍ má alls ekki taka niður verð vara búðarinnar! Ítrekað var óskað eftir að fá að ræða við verslunarstjóra sem lét ekki ná í sig þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanns. Formanni RSÍ var bannað að nýta þær upplýsingar sem hann náði að skrifa niður.

Það er virkilega sérkennilegt að þeir einu sem ekki hafa heimild til þess að skoða vöruverð er sá aðili sem miðlar upplýsingum til almennings um vöruverð viðkomandi verslana. Starfsmenn Bónuss fá til að mynda að skrá niður allt vöruverð búðarinnar rafrænt. Er þetta gert til þess að verlsanir geti skipt á milli sín þeim gróða sem almenningur verður af? Getur verið að þetta sé í raun ólöglegt samráð verslanakeðjanna sem stuðlar að því að gera neytendum ómögulegt að átta sig á verðlagi og velta hækkunum sífellt beint út í verðlagið sem hækkar skuldir og eykur greiðslubyrgði heimilanna?

Því hefur verið kastað fram af hálfu þessara aðila að verðlagseftirlit ASÍ standi ekki rétt að þessu eftirliti, ekki sé verið að bera saman sömu vörur. Þetta er RANGT! Nú hef ég reynt þetta sjálfur, ég versla mikið inn fyrir heimilið og þekki því vel til verslana, verið er að bera saman nákvæmlega sömu vörur í mismunandi verslunum. Verð er skráð niður á vörum sem innihalda nákvæmlega jafn mikið magn af viðkomandi varningi, í jafnstórum einingum. Jafnframt er skráð niður lægsta vöruverð tiltekinna flokka eins og lægsta fáanlega lítraverð á Léttmjólk.

Ef þessi aðferðarfræði ASÍ er röng þá má jafnframt spyrja hvernig Hagstofa Íslands getur tryggt það að vísitala neysluverðs (notuð til verðbólguútreikninga) sé rétt skráð? Hagstofan hringir í fjölda fyrirtækja og óskar eftir verðupplýsingum á tilteknum vörum í gegnum síma, Hagstofan fer í verslanir og framkvæmir könnun með sama hætti og ASÍ. Verslanir senda inn lista til Hagstofunnar með verðum ákveðinna vara sem Hagstofan óskar eftir.

Nú spyr ég sem leikmaður: Er eðlilegt að aðilar sem geta haft bein áhrif á verð vöru sendi Hagstofunni vöruverð rafrænt eða í gegnum síma? Gefur slík könnun nægilega góðan grunn til þess að mynda vísitölu sem hefur áhrif á allar skuldir og hefur bein áhrif á vaxtastig í landinu með hærra vöruverði og aukinni verðbólgu?

Hvað hafa verslunareigendur Nóatúns að fela fyrst þeir vísa formanni Rafiðnaðarsambands Íslands á dyr ásamt starfsmönnum ASÍ sem standa að verðlagseftirlitinu? Af hverju í ósköpunum má almenningur ekki vita hvernig vöruverð þróast í búðum og fá samanburð á vörum mismunandi verslanakeðja? Af hverju eigum við, almenningur, að leyfa þessum aðilum að komast upp með að þetta! Er ekki kominn tími til að rísa upp gegn verslunum landsins, fyrst þær vilja ekki vera í liði með þjóðinni, og að allur almenningur fari í verðkannanir í enn meiri mæli og skrái á www.vertuaverdi.is

Tökum höndum saman og náum fram stöðugleika í verðlag á Íslandi í eitt skipti fyrir öll!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður Rafiðnaðarsambands Íslands


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband