Á að dæma alla lífeyrissjóði vegna stöðu sumra þeirra?

Í dag boðaði FME til blaðamannafundar þar sem fjallað var um stöðu lífeyrissjóða m.a. í tryggingafræðilegu tilliti. Í skýrslunni er bent á stöðu lífeyrissjóðanna og kristallast veikleiki eins hluta kerfisins í þessari samantekt. Halli sjóðanna í heild sinni eru 668 milljarðar króna og ef rýnt er í töflu þar sem allir sjóðir eru teknir saman og staða þeirra sýnd þá kemur í ljós að opinberu sjóðirnir, ríkis og sveitarfélaga, bera lang stærstan hluta þeirra skuldbindinga umfram eignir eða -474 milljarðar króna. Þar af er staða LSR neikvæð um 430 milljarða.

Ástæða þess að opinberu sjóðirnir eru í þetta slæmri stöðu er sú að réttindi sjóðfélaganna eru á ábyrgð launagreiðanda og þessir launagreiðendur hafa ekki greitt í sjóðina í samræmi við það sem nauðsynlegt hefði verið á undanförnum árum. Þessir launagreiðendur greiða eingöngu það sem nauðsynlegt er á hverju ári til að standa straum af útgreiðslum eða þar um bil. Þetta veldur því að sjóðurinn safnar ekki upp eignum og er því í raun ekki söfnunarsjóður heldur gegnumstreymissjóður. Lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði eru allir söfnunarsjóðir þar sem sjóðirnir sjálfir verða að eiga fyrir þeim skuldbindingum sem þeim ber að greiða sjóðfélögum. Launagreiðendur þurfa ekki að bæta óvænt tap þeirra upp heldur taka sjóðfélagar áföllin á sig í formi skerðingar eða eins og á árunum fyrir Hrun í formi réttinda aukningar.

Séu töflur í skýrslu FME rýndar sést staða þessara sjóða mjög vel en allir þeir sjóðir sem eru á almennum vinnumarkaði eru með samanlagt neikvæða stöðu upp á -6,3%. Þeir sjóðir hafa skert réttindi í einhverjum mæli til að eiga fyrir áföllnum skuldbindingum. Þetta gerir almennu sjóðina sjálfbæra. Fari eignir umfram skuldbindingu niður fyrir -10% (tímabundið -15%) þá þurfa þeir að skerða réttindi sjóðfélaga. Fari eignir 10% umfram skuldbindingu þá þurfa þeir að auka réttindi sjóðfélaga. Sem sagt eignum sjóðanna (sem eru eignir sjóðfélaganna) er deilt út í samræmi við þær eignir sem safnað og ávaxtað hefur verið. Sjóðir með ábyrgð launagreiðenda (opinberir sjóðir) eru samtals með neikvæða stöðu upp á -59,4% og eru sjóðir á meðal þeirra með neikvæða stöðu upp á allt að - 100%!

Við hljótum að geta dregið þá ályktun út frá þessari skýrslu að lífeyrissjóðir eigi að vera söfnunarsjóðir en ekki gegnumstreymissjóðir. Við sjáum til dæmis stöðu Grikklands í dag, Grikkir eru með gegnumstreymissjóði sem er að sliga gríska ríkissjóðinn. Þar spilar margt inn í dæmið svo sem lágur eftirlaunaaldur, hækkandi lífaldur og áfallin skuldbinding ríkissjóðs sem ekki getur greitt í sjóðinn eins og nauðsynlegt reynist.

Allt tal um að staða sjóðanna sanni að lífeyriskerfið sé að hruni komið er hreint út sagt kolrangt. Sá vandi sem er stærstur og nauðsynlegt er að bæta úr snýr eins og áður sagði að hinum opinberu sjóðum þar sem launagreiðendaábyrgð er í gildi. Það verður að taka á þeim vanda strax og gera sjóðina sjálfbæra með greiðslum í sjóðina, þannig að eignir sjóðanna standi undir þeim skuldbindingum sem hvíla á sjóðunum án þess að greiða þurfi sérstaklega í þá umfram eðlilegar inngreiðslur sjóðfélaga. Það er ekki ásættanlegt að þessar fjárhæðir séu sóttar í vasa skattgreiðenda og þá fyrst og fremst til skattgreiðenda á almennum vinnumarkaði sem þurfa að taka á sig skerðingar.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Á að dæma suma lífeyrisþega vegna stöðu annarra?

Hverja er löglegt að svíkja um að fá sína eigin peninga, til að svikarar, lífeyrissjóðs-forstjórar, sérhagsmuna-aðilar og spillingar-klíkuverktakar fái að lifa á eignum svikinna lífeyrisþega?

Þetta er siðferðis-spurning, en ekki lögfræðileg né hagfræðileg.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 3.7.2012 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband