Færsluflokkur: Menntun og skóli

Rafbækur

Nokkur umræða hefur verið um rafbækur að undanförnu og hafa grunnskólar jafnvel tekið upp notkun tölva til lestrar rafbóka, svokallaðar "kindle" lestölvur. Mikil og hröð þróun hefur verið í slíkum búnaði að undanförnu sem gerir þetta form bóka spennandi kost fyrir nemendur enda gefst þá möguleiki á að geyma allar bækur á einum stað og bakpokinn verður þeim mun léttari.

Árið 2006 opnaði Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins rafbókarvefinn www.rafbok.is en þar gefst nemendum í rafiðngreinum kostur á að sækja sér kennslubækur sem kenndar eru í skólunum eða ýmislegt ítarefni sem nýtist nemendunum til stuðnings. Þessar kennslubækur eru upphaflega fengnar frá kollegum okkar í Danmörku og unnið hefur verið að þýðingu undanfarin ár og er búið að þýða nánast allar kennslu bækur fyrir grunndeild rafiðna yfir á íslensku ásamt því sem kennarar hafa miðlað ýmsu efni úr þeirra kennslu inn á vefinn. Aðgangur nemenda og annarra áhugasamra rafiðnaðarmanna er gjaldfrjáls enda er það markmið að auðvelda nemendum Í rafiðnaði að sækja sér þá menntun sem þeir stefna á án þess að kostnaður verði of mikill, en ekki síður það að það kennsluefni sem notast er við sé ekki úrelt enda eru tækninýjungar gríðarlega miklar í rafiðnaði og nauðsynlegt getur verið að endurnýja efni í sumum greinum örar en almennt gerist.

Rafiðnaðarsamband Íslands hefur staðið dyggilega við bakið á Fræðsluskrifstofunni við gerð þessa efnis og þá sérstaklega við þýðingar kostnað. Ég tel að sú ákvörðun sem tekin var á árunum 2005-6 að hefja þýðingu þessa efnis verið mjög mikilvæga enda sjáum við það í dag að tölvubúnaður er orðinn það hentugur til lestrar rafbóka sem raun ber vitni og með auðveldum hætti er hægt að glósa inn á skjöl í spjaldtölvum og því þörfin orðin minni á að hafa bækur á pappírsformi.

Í dag eru 1.100 skrár í rafbókasafni www.rafbok.is en þar af eru yfir 200 skrár á íslensku sem annað hvort hefur verið þýtt af dönsku yfir á íslensku eða eru handbækur og önnur kennslugögn sem kennarar hafa sett saman á undanförnum árum til miðlunar til nemenda sinna. Með þessu er nemendum gert kleyft að sækja sér þær upplýsingar sem þörf er á á íslensku þar með hefur hindrun sem felst í tungumálakunnáttu verið rutt úr vegi enda getur skilningur á tungumálum reynst mörgum mjög erfið en hjá þeim nemendum sem hefja nám í rafiðnaði strax eftir grunnskóla geta fyrstu ár framhaldsnáms nýst betur þegar kennsluefnið er á móðurmáli þó svo að þegar lengra er komið sé mikil þörf á að tungumálakunnátta sé betri og ekki síður þegar út á vinnumarkaðinn er komið.

Ótvíræður kostur við rafbækur er einnig að fyrir þá sem glíma við lestrarörðugleika eins og lesblindu þá bjóða lestrarforrit flest hver upp á möguleikann á að breyta bakgrunni og leturlit með þeim hætti að litirnir henti hverjum og einum. Þessi möguleiki hefur auðveldað þeim fjölmörgu sem eru að glíma við lesblindu að afla sér menntunar og í mörgum tilfellum hefur þetta aukið leshraða og skilning margra alveg gríðarlega. Það er nauðsynlegt að þróa kennsluaðferðir sem taka mið af því að námsefnið er á rafrænuformi. Við eigum að nýta okkur það sem tæknin hefur upp á að bjóða í kennsluaðferðum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband